Fasteignamál - fasteignagalli

Gölluð fasteign, leyndur galli eða húsfélagsdeila?

Algengustu ágreiningsmál er varða fasteignir og fasteignakaup eru vegna galla á fasteignum og mögulegum afsláttar og/eða skaðabótum vegna fasteignagalla. Þá kunna að koma upp mál er varða ágreining í fjöleignahúsum, t.a.m. um kostnaðarskiptingu framkvæmda o.s.fr. 

Lögmenn okkar eru sérhæfðir á sviði fasteignaréttar og aðstoða fyrirtæki og einstaklinga í slíkum málum, hvort sem að þú ert kaupandi og þarft að leita réttar þíns og telur þig eiga rétt á skaðabótum vegna fasteignagalla, eða seljandi vegna annarra vanefnda.

Séu uppi einhver álitamál á sviði fasteignamála hvetjum við þig til að hafa samband og við útskýrum réttarstöðuna á mannamáli.

Það kostar ekkert að kanna rétt þinn

Hafðu samband í síma 551-8660 – eða bókaðu viðtal hér:

Almennt um fasteignagalla

Samkvæmt fasteignakaupalögum telst fasteign gölluð ef hún stenst ekki kröfur um gæði, búnað og annað sem leiðir af lögum og kaupsamningi. Þá telst fasteign einnig gölluð ef eignin verður ekki talin henta til þeirra afnota sem sambærilegar eignir eru venjulega notaðar til eða hentar ekki til sérstakra afnota fyrir kaupanda, sem seljanda var eða mátti vera kunnugt um við gerð kaupsamnings.

Lýsa má framangreindu sem hinni almennu fasteignagallareglu, þar sem kaupandi kann að verða var við að eiginleikar fasteignarinnar standast ekki þær kröfur og/eða lýsingu sem fram kom á söluyfirliti eða í kaupsamningi um eignina. Verði kaupandi var við slíka vankanta á fasteign eftir afhendingui, eru góðar líkur á að um bótaskyldan fasteignagalla sé að ræða, ef slíkur ágalli eignarinnar hefur ekki legið fyrir áður en gengið var frá kaupsamningi. Líklega má telja að algengasta orsök fasteignagalla sé að upp komist um myglu eftir að gengið hefur verið frá kaupum. Oft er vísað til slíkra vendinga sem leynds galla, en leyndur galli í fasteign kann að leiða til bótaskyldu seljanda.

Samkvæmt fasteignakaupalögum hvílir upplýsingaskylda á seljendum fasteigna, sem felur í sér þá skyldu að upplýsa kaupanda um alla hugsanlega vankanta fasteignarinnar, áður en gengið er frá kaupsamningi. Ef kaupandi verður var við ágalla á fasteigninni eftir afhendingu og talið verður ljóst að seljandi vissi eða mátti vita um gallann, án þess að hafa upplýst um hann, telst fasteignin vera gölluð.

Í slíkum tilvikum er því um fasteignagalla að ræða og á kaupandi því bótakröfu á hendur seljanda sem nemur fjárhæð gallans.

Í vissum tilvikum við sölu fasteigna, kann hin selda eign að vera skráð eða uppgefin stærri í fermetrafjölda en hún í rauninni er. Sem dæmi kann hin selda eign að hafa verið kynnt fyrir kaupanda sem 100 fermetra eign, en svo kemur á daginn að fasteignin er raunar 90 fermetrar.

Samkvæmt fasteignakaupalögum kunna slík stærðarfrávik á fasteign að teljast til fasteignagalla sem seljandi og eftir atvikum fasteignasali bera bótaábyrgð á.

Líkt og rakið var að framan hvílir rík upplýsingaskylda á seljanda um eiginleika fasteignar áður en gengið er frá kaupsamningi. Samkvæmt fasteignakaupalögum ber seljandi einnig ábyrgð á að þær upplýsingar sem veittar eru um fasteign áður en gengið er frá kaupsamningi. Því verða þær upplýsingar sem seljandi veitir að vera sannleikanum samkvæmt og gefa rétta mynd af eiginleikum fasteignarinnar. 

Hafi seljandi veitt rangar upplýsingar um eiginleika fasteignar, t.a.m. að nýlegt þak sé á fasteiginni, sem síðar reynist ekki vera rétt, telst slík röng upplýsingagjöf til fasteignagalla. Það sama á við ef fasteignin er ekki í samræmi við upplýsingar sem veittar eru í auglýsingum, söluyfirliti eða öðrum sölugögnum. Í slíkum tilfellum á kaupandi því bótakröfu á hendur seljanda og eftir atvikum fasteignasala.

Scroll to Top
Hringdu í okkur